
Frá upphafi til sameiningar | Saga tveggja fyrirtækja
Árið 2025 sameinuðust Björgun og Sementsverksmiðjan undir einu nafni: Björgun-Sement, en rætur fyrirtækjanna ná aftur til ársins 1952.
Björgun-Sement framleiðir hágæða steinefni úr námum á sjó og landi og flytur inn sement fyrir íslenskan byggingariðnað. Fyrirtækið sinnir einnig hafnardýpkunum og dælingu á sjávarefnum ásamt því að starfrækja námuvinnslu í landi.
Starfsemin felur í sér:
- Framleiðslu, öflun og afhendingu hágæða steinefna úr námum.
- Innflutning og dreifingu á sementi frá Heidelberg Materials í Noregi.
- Dýpkunarframkvæmdir og efnistöku úr sjó með sérútbúnum dæluskipum, Álfsnesvík og Sóley.
- Námuvinnslu og afhendingu steinefna fyrir mannvirkjagerð um allt land.
- Hafnarþjónustu með margvíslegri lestun og losun hráefna.

Saga Björgunar
Björgun ehf. var stofnað þann 11. febrúar 1952. Reksturinn snerist í upphafi um björgun strandaðra skipa og er nafn félagsins þannig til komið. Fyrsta verkefni Björgunar var að vinna að niðurrifi flutningaskipsins Clam sem strandað hafði á Reykjanestá.
Meðal stofnenda félagsins var Kristinn Guðbrandsson og var hann helsti sérfræðingur félagsins um björgun strandaðra skipa og í raun þjóðsagnapersóna fyrir þau afrek. Kristinn var fyrsti forstjóri fyrirtækisins og stýrði félaginu farsællega um áratugaskeið.
Leo og Sandey
Fyrstu dæluskipin
Árið 1954 eignaðist Björgun sitt fyrsta dæluskip sem hlaut nafnið Leo og var það fyrsti vísir að breyttri starfsemi fyrirtækisins. Leo var í rekstri allt til ársins 1975.
Árið 1962 var stigið stórt skerf í sögu fyrirtækisins þegar það keypti flutningaskipið Wumme og lét breyta því í sanddæluskip í Þýskalandi. Wumme fékk nafnið Sandey við heimkomuna og Björgun kom sér upp athafnasvæði við Vatnagarða í Reykjavík.
Við Vatnagarða í Reykjavík kom félagið sér upp aðstöðu til löndunar og flokkunar á sandi og möl. Efninu var dælt upp í hörpu sem flokkaði efnið i fjóra stærðarflokka. Þessi aðferð var notuð allt til ársins 2008 þótt efnisvinnslan hafi með tímanum orðið mun meiri en var í fyrstu.
Kristinn Guðbrandsson
Fyrsti forstjóri Björgunar
Árið 1965 bjargaði Kristinn Guðbrandsson og menn hans flutningaskipinu Susanne Reith sem tekið hafði niðri við innsiglinguna í Raufarhöfn. Þegar Kristinn kom á vettvang höfðu menn gefið upp alla von um að hægt væri að bjarga skipinu en með útsjónarsemi og seiglu tókst að koma skipinu á flot og var það dregið til Skotlands þar sem því var breytt í efnisflutningaskipið Grjótey.
Grjótey var í eigu Björgunar til ársins 1970 þegar skipið var selt. Sandey II bættist í flota Björgunar árið 1976 og dæluskipið Perla, árið 1979 sem var í rekstri allt til ársins 2015 þegar skipið sökk við niðurtöku úr slipp. Um tíma gerði Björgun því út þrjú dæluskip en Sandey II var rekin allt til ársins 1983.
Sigurður R. Helgason tók við framkvæmdastjórn félagsins árið 1981 og stýrði félaginu við góðan orðstýr inn í nýja spennandi tíma. Árið 1988 urðu svo enn ein þáttaskilin í sögu Björgunar þegar dæluskipið Sóley bættist í flotann en skipið var mun stærra og afkastameira en fyrri skip félagsins. Sandey var lagt í byrjun tíunda áratugarins.
Sævarhöfði og starfsemi
Uppbygging bryggjuhverfis
Upp úr 1990 hófst nýr kafli í sögu Björgunar þegar félagið réðst í stækkun á lóð félagsins við Sævarhöfða og uppbyggingu bryggjuhverfis að erlendri fyrirmynd. Hugmyndin var þróuð í samvinnu við Björn Ólafs arkitekt og var upphafið að þátttöku Björgunar í landaþróunarverkefnum þar sem nálægðin við hafið er nýtt til afþreyingar og útivistar. Björgun hefur síðan, stundum í samvinnu við aðra, lagt fram fjölda hugmynda að sambærilegum verkefnum. Tvö þeirra, Sjáland í Garðabæ og Bryggjuhverfi á norðanverðu Kársnesi í Kópavogi, bæði unnin í samvinnu við Byggingafélag Gylfa og Gunnars ehf., hafa orðið að veruleika.
Námuvinnsla og sanddæluskipið Álfsnes
Nýtt afhafnasvæði í Álfsnesvík
Árið 2016 voru undirritaðir samningar um rýmingu Björgunar af lóðinni við Sævarhöfða 33 í tengslum við stækkum Bryggjuhverfisins.
Árið 2022 tók fyrirtækið síðan í notkun nýtt athafnasvæði við Álfsnesvík þar sem höfuðstöðvar Björgunar eru nú til húsa, ásamt steinefnavinnslu og hafnarþjónustu.
Björgun hefur ávallt haft á að skipa góðu starfsfólki sem hefur sýnt mikinn metnað, fagmennsku og þolinmæði í gegnum tíðina. Vert er að nefna að öðrum ólöstuðum störf Gunnlaugs Kristjánssonar fyrrverandi forstjóra félagsins sem féll frá árið 2015 langt fyrir aldur fram en hann var ráðinn til félagsins árið 2007.

Saga Sementsverksmiðjunnar
Allt frá landnámstíð olli það vandkvæðum á Íslandi að ekki var til nægilega auðnotað varanlegt byggingarefni í landinu sjálfu. Bygging Sementsverksmiðju ríkisins og góð framleiðsla hennar hefur átt drjúgan þátt í því að efla og auka varanlega mannvirkjagerð, svo sem húsbyggingar, hafnarmannvirki, vegi og ótalmargt annað, sem stuðlar að betra lífi og afkomuöryggi fólksins í landinu.
Sementsverksmiðjan hefur ávallt verið staðsett á á Akranesi en saga hennar á rætur að rekja til ársins 1948 þegar Alþingi samþykkti heimildarlög um byggingu sementsverksmiðju.
Íslenska ríkið var upphaflegur eigandi Sementsverksmiðjunnar en rekstrinum var breytt í hlutafélag í eigu ríkisins frá og með 1. janúar 1994. Árið 2003 var samþykkt heimild til iðnaðarráðherra um að selja eignarhluta ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf og eignaðist Íslenskt sement ehf verksmiðjuna í framhaldinu. Á árinu 2011 varð Sementsverksmiðjan einkahlutafélag og er núverandi eigandi Eignarhaldsfélagið Hornsteinn.
Námuvinnsla og sanddæluskipið Álfsnes
Sementsframleiðsla hefst á Íslandi
Þann 14. júní 1958 var í fyrsta sinn kveikt undir gjallbrennsluofninum og þar með hóf verksmiðjan sementsframleiðslu. Framleiðslugeta fyrirtækisins var um 115 þúsund tonn af sementsgjalli á ári, en úr því gjalli var hægt að framleiða um 135 þúsund tonn af sementi. Verksmiðjan gat malað umtalsvert meira af sementsgjalli heldur en nam hámarks gjallframleiðslu hennar. Þegar á þurfti að halda var flutt inn gjall til mölunar til að mæta aukinni eftirspurn í tengslum við mannvirkjagerð.
Hafist handa við að flytja inn sement frá Noregi
Innflutningur á sementi
Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og eftir fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins var ákveðið að hætta sementsframleiðslu á Akranesi. Fyrirtækinu var breytt í innflutningsfyrirtæki og hófst innflutningur sements 2012. Sementsverksmiðjan flytur inn þrjár sementstegundir frá norska sementsframleiðandanum Heidelberg Materials Sement Norge. Sementstegundirnar eru Anleggsement, Standardsement FA og Industrisement. Anleggsenmentið er hreint portlandsement, Standardsementið er svokallað blandað sement en Industrisementið er hraðsement.
Sementið er flutt til landsins í sérútbúnum skipum í 7.200 tonna förmum og er dælt úr skipunum í birgðastöðvar. Sementsverksmiðjan rekur tvær birgðastöðvar, 16.000 tonna birgðastöð á Akranesi og 4.000 tonna birgðastöð á Akureyri. Út frá birgðastöðvunum er sementinu dreift til viðskiptavina sem eru steypuframleiðendur, múr- og einingaverksmiðjur. Sementinu er dreift í sérútbúnum bílum sem taka um 30 tonn hver. Sementinu er dælt með lofti úr bílunum í sementssíló í eigu viðskiptavina.
Öflugur hópur starfsfólks
Starfsmannahópurinn
Starfsmannafjöldi Sementsverksmiðjunnar hefur verið breytilegur í gegnum árin. Í upphafi störfuðu um 80 manns við framleiðsluna. Þegar mest var um 1980 störfuðu tæplega 200 manns hjá fyrirtækinu. Með aukinni tæknivæðingu og hagræðingu fækkaði starfsfólki. Eftir það störfuðu fimm starfsmenn hjá fyrirtækinu, en dreifingu sements, rekstri birgðarstöðvar á Akureyri, skrifstofuhaldi og rannsóknarstarfssemi er úthýst.
Fyrsti framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins var dr. Jón E. Vestdal sem starfaði til 1967. Svavar Pálsson var framkvæmdastjóri 1968 – 1971 og fjármálalegur framkvæmdastjóri 1972 – 1977. Dr. Guðmundur Guðmundsson var tæknilegur framkvæmdastjóri frá 1972 – 1993. Gylfi Þórðarson var fjármálalegur framkvæmdastjóri frá 1978 – 1993 og framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar hf frá 1994 – 2005. Gunnar H. Sigurðsson hefur verið framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar ehf frá 2005.
Gæðavottun frá 1998
Skriðþungi í umhverfismálum
Mikil áhersla er lögð á að gæði sementsins uppfylli kröfur viðskiptavina og standist allar skilgreindar gæðakröfur samkvæmt stöðlum. Til að tryggja gæðin hefur Sementsverksmiðjan rekið vottað gæðakerfi frá árinu 1998, eða í um 24 ár. Þá hefur félagið aðgang að sérfræðingum í málefnum sements, bæði innanlands og utan, sem ávallt eru reiðubúnir að veita viðskiptavinum okkar upplýsingar og stuðning. Þá er fyrirtækið með vottað öryggisstjórnunarkerfi, ISO 45001:2018 enda er rík áhersla lögð á öryggismenningu og heilbrigt starfsumhverfi.
Við framleiðslu sements er kalksteinn brenndur í gjallbrennsluofnum við um 1450 celsíusgráður, en við það efnaferli losnar koldíoxíð. Sementsframleiðsla í heiminum er þannig sú framleiðsla sem er einna mest mengandi með tilliti til gróðurhúsalofttegunda. Með aukinni umhverfisvitund stjórnvalda og almennings er nú lögð áhersla á að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Til að bregðast við þessari áskorun hefur framleiðandi sementsins Heidelberg Materials Sement Norge sett sér það markmið, að á árinu 2030 verði sementið frá Noregi að fullu kolefnisjafnað. Þetta hyggst framleiðandinn meðal annars gera með því að fanga koldíoxið úr útblæstri gjallbrennsluofnanna og koma þannig í veg fyrir að það berist í andrúmsloftið. Sement frá Heidelberg Materials verður þannig ennþá umhverfisvænna byggingarefni.